Skýrsla formanns
Skýrsla formanns
SKÝRSLA STJÓRNAR ÍSLENSKA SAFNAÐARINS Á SPÁNI
Frá árinu 2006 var séra Ragnheiður Karítas með messur 3x á ári í norsku sjómannakirkjunni í Torrevieja og var það styrkt af Biskupsstofu. Karl Sigurbjörnsson var þá milligöngumaður um leigu á kirkjunni og styrk fyrir útgjöldum. Presturinn gerði þetta í sjálfboðaliðavinnu í sumarfríum sínum, en hún hafði þá prestsembætti á Íslandi. Þetta starf gekk afar vel og var til ársins 2012, eða þar til presturinn flutti til Noregs. Í tengslum við messurnar var nokkuð um athafnir og sálgæslu oft í gegnum síma eftir að presturinn kom til Íslands. Einnig var stofnaður kirkjukór sem var mjög öflugur og studdi vel við almennan safnaðarsöng.
Þann 6. september 2021 sendi presturinn til Þjóðkirkjunnar undirritaða beiðni frá stjórn Íslendingafélagsins á Spáni um stuðning við prestsþjónustu á Spáni. Þáverandi stjórn félagsins undirritaði hvatninguna og gat þess að þegar væri hafinn væri undirbúningur að stofnun formlegs safnaðar.
Séra Gísli Gunnarsson þáverandi sóknarprestur í Glaumbæ í Skagafirði og núverandi biskup á Hólum í Hjaltadal, hefur lengi setið á kirkjuþingi íslensku þjóðkirkjunnar. Hann lagði fram mál á kirkjuþingi 2021 til 2022, þar sem hann lagði fram tillögu um að söfnuðurinn á Spáni, fengi sama styrk frá Þjóðkirkjunni og aðrir söfnuðir kirkjunnar sem eru starfandi erlendis. Tillagan var samþykkt með þeim fyrirvara að stofnaður yrði formlegur söfnuður.
UNDIRBÚNINGUR SAFNAÐAR
Undirbúningur að formlegum söfnuði hófst haustið 2021 og var stofnfundur haldinn þann 2. desember. Vegna forfalla var séra Ragnheiður ekki viðstödd stofnfundinn en Karl Kristján Hafsteinn Guðmundsson sá um hann og voru kosnir í stjórn 5 aðalmenn og 5 varamenn. Þau skiptu með sér verkum með eftirfarandi hætti:
STJÓRN:
Hörður B Olsen, formaður.
Margrét Óskarsdóttir, gjaldkeri.
Magnús Líndal Sigurgeirsson, ritari.
Anna Kristín Kristjánsdóttir, meðstjórnandi.
Brynjólfur Yngvason, meðstjórnandi.
VARASTJÓRN:
Ásta María Kristinsdóttir, varastjórn.
Ásta Salný Sigurðardóttir, varastjórn.
Bjarni Jarlsson, varastjórn.
Ebba Unnur Kristinsdóttir, varastjórn.
Jóhanna B Kristjánsdóttir, varastjórn.
Karl hófst einnig þegar handa við að skrá félagið hjá skattayfirvöldum, fá kennitölu, bankareikning, lögheimili og undirskriftir stjórnarmeðlima og prests. Auk þess setti hann upp heimasíðu safnaðarins, facebook-síðu og fékk lénið LUTHER.IS
Söfnuðurinn var skráður sem almannaheillafélag með kennitöluna 670122-0770, bankareikning 0325-26-002515 og með skráð lögheimili að Drápuhlíð 7, 105 Reykjavík. Endurskoðandi er: Jónas Gestur Jónasson hjá Delotte og skoðunarmaður reikninga er Lilja Gunnarsdóttir.
Stofnsamning og samþykktir safnaðarins má finna á LUTHER.IS
UMSÓKNIR UM STYRKI
Þegar þessi praktísku mál voru komin í höfn, sendi séra Ragnheiður Karítas fyrir hönd stjórnar safnaðarins, umsókn um styrk fyrir starfsárið 2022. Umsóknin var send til Gísla Jónassonar, formanns fjárhagsnefndar kirkjuþings Þjóðkirkjunnar. Umsóknin var tekin fyrir á aukafundi fjárhagsnefndar í apríl 2022 og samþykkt að veita 1.200.000 styrk út jöfnunarsjóði kirkjunnar fyrir starfsárið 2022. 24. ágúst 2022 var svo sótt um styrk fyrir starfsárið 2023 og var sú styrkbeiðni einnig samþykkt og styrkurinn greiddur inn á reikning safnaðarins í janúar 2023. Þetta eru sömu upphæðir og veittir eru öðrum söfnuðum erlendis, eða 1.200.000 á ári.
Þetta hefur gert söfnuðinum kleift að greiða útlagðan kostnað sem fylgir þjónustunni. Má þá helst nefna stofnkostnað, aksturskostnað og kostnað vegna messuhalds. Fyrsta messan var haldin 4. desember 2022 í sænsku kirkjunni í Torrevieja. Gísli Gunnarsson vígslubiskup heimsótti söfnuðinn af þessu tilefni og þjónaði fyrir altari ásamt presti safnaðarins og Margréti Gunnarsdóttur, djákna. Anna Kristjánsdóttir leiddi upphafsbæn og meðhjálpari var Alexander Hansen, Manuel Muñoz Zerón ræðismaður, las ritningarlestur á ensku.
Stjórn og prestur eru í samtali við sænsku kirkjuna um frekara samstarf og lofar það góðu. Þá verður hægt að skipuleggja atburði fram í tímann en vonast er til að hægt verði að hafa messur annað slagið. Fyrir messuna 4. desember, varð til vísir að kór sem við myndum vilja efla á þessu ári. Einnig væri gaman að koma á einhverju barna og unglingastarfi. Fleiri hugmyndir að þjónustu á vegum safnaðarins hafa komið upp.
Það yrði þá unnið í sjálfboðaliðavinnu en bæði stjórn og prestar eru sjálfboðaliðar.
Séra Lilja Kristín Þorsteinsdóttir og séra Jóna Lovísa Jónsdóttir eru báðar tilbúnar til að leysa séra Ragnheiði Karítas af í leyfum eftir því sem hægt er að koma því við. Auk þess er séra Ragnheiður Karítas í tengslum við fleiri íslenska presta sem hafa lýst sig reiðubúna til að leggja hönd á plóginn. Þannig ættum við að geta haft sem mesta samfellu í þjónustunni.
Eins og áður segir þá er prestsþjónustan sjálfboðin þjónusta og hefur séra Ragnheiður aðallega sinnt sálgæslu og athöfnum. Einnig eru hugvekjur birtar á facebook-síðunni serakaritas af og til og töluverður fjöldi beiðna um fyrirbænir hafa borist prestinum. Í vor fermast tvær stúlkur á vegum safnaðarins og verður fermingarmessan auglýst svo fljótt sem auðið er. Allar auglýsingar birtast á www.luther.is
Á stofnfundinum var ákveðið að hafa meðlimagjald í söfnuðinum 3.000 kr. Stjórnin hefur fallið frá því og tekið upp valgreiðslur eins og gert er í norsku sjómannakirkjunni og sænsku kirkjunni.
Ekki er gerð krafa um að ganga úr þeim trúfélögum sem meðlimir íslenska safnaðarins á Spáni eru í.
Um áramót voru skráðir meðlimir safnaðarins 76. Það má segja að það sé nokkuð gott miðað við t.d. sænsku kirkjuna á Costa Blanca en meðlimir hennar eru rúmlega 500 og söfnuðurinn hefur starfað hér um árabil og hefur nú nýlega byggt þessa fallegu kirkju sem við erum í.
Fjórir stjórnarmeðlimir ganga út nú: Ebba Unnur Kristindóttir Magnús Líndal Sigurgeirsson og Bjarni Jarlsson og Jóhanna B Kristjánsdóttir.
Alexander Hansen, Amanda Sunneva Joensen, Arnheiður Matthíasdóttir og Sigurður Þ Ragnarsson hafa lýst áhuga á að ganga til liðs við stjórnina í stað þeirra sem ganga út og ef til vill fleiri sem vilja gefa kost á sér. Hinir sem hafa verið í stjórn munu halda áfram. En gengið verður til kosninga nú á eftir og mun svo ný stjórn skipta með sér verkum.
Fyrir hönd stjórnar íslenska safnaðarins á Spáni,
Hörður B Olsen.