En það bar til um þessar mundir, að boð kom frá Ágústus keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gjörð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar.
Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni, sem var þunguð. En meðan þau voru þar, kom sá tími, er hún skyldi verða léttari. Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu, af því að eigi var rúm handa þeim í gistihúsi.
En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar.Og engill Drottins stóð hjá þeim, og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir, en engillinn sagði við þá: Verið óhræddir, því sjá, ég boða yðurmikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs .Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu. Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita, sem lofuðu Guð og sögðu:
Heilög jól er hátíðin sem minnir á Guðs verk í heimi mannanna. Guðs birtu í dimmunni. Guðs líf í köldum heimi. Guðs gjöf og hjálpræði. Ljósið og birtan er boðskapur kristinnar trúar. Boðskapur jólanna. Ljósin, jólaljósin eru vitnisburður um að við bjóðum Krist velkominn. Bjóðum ljós lífsins velkomið og fögnum komu frelsarans á fæðingarhátíð hans.
Í jólaguðspjalli guðspjallamannsins Lúkasar fylgjumst við með för Maríu og Jósefs frá Galíleu frá borginni Nasaret til Betlehem til að hlýða boði keisarans um að láta skrásetja sig. Við höfum öll séð á myndum hvernig Jósef leiðir litlu ösnuna sem ber Maríu þungaða, alveg komna að því að fæða litla barnið sitt. Þau fara hægt yfir og leiðin er löng, heilar þrjár dagleiðir og sennilega var hún því einnig ströng. Myndir sem við höfum séð af för þeirra eru þó jafnan friðsælar og fagrar. Sumar prýddar stjörnubjörtum himni. Aðrar jafn fagrar sem sýna för þeirra í birtu og ljóma dagsins.
Þó ferðin hafi verið löng og ströng, varð engin hindrun á för þeirra en eins og við vitum komust þau til Betlehem, þar sem frelsarinn fæddist og var lagður í jötu. Dýrin í fjárhúsinu héldu hita á litla barninu og þrátt fyrir að barnið hafi þurft að fæðast í fjárhúsi er einnig einhverskonar ljómi yfir þeim myndum sem við höfum séð af fjárhúsinu.
Í dag er landslagið breytt, myndin breytt, aðstæður breyttar. María og Jósef hefðu einfaldlega ekki komist til Betlehem. Múrinn mikli sem svo sannarlega stafar enginn ljómi af hefði heft för þeirra.
Ég hef séð þennan múr og hann var ógnvænlegur og ekki hafa áhrif hans og afleiðingar batnað. Ég man að ég fylltist sorg yfir merkingunni sem þessi múr felur í sér fyrir Palestínumenn en einnig sorg yfir ungu varðmönnunum sem gættu varðhliðsins sem ég fór í gegnum. Í fylgd komst ég yfir til Betlehem og fékk að líta Betlehemsvelli augum. Þó stendur ávallt myndin af múrnum mér frekar fyrir sjónum þegar ég minnist ferðar Maríu og Jósefs til Betlehem.
Múrnum gráa og kalda og hvað hann merkir fyrir mannverur, ungt fólk, börn, feður og mæður. En þrátt fyrir þann frið sem stafar frá fæðingarfrásögninni í Betlehem, er baksvið frásagnarinnar ógnvekjandi. Pólítískt umbrotaskeið og harðstjórn og handan við hornið eru barnamorðin í Betlehem.
Veröldin sem frelsarinn fæddist inn í, er ekki fullkomin. Maðurinn er ekki fullkominn. Ég og þú, við erum ekki fullkomin. Maðurinn er skapaður með frjálsan vilja. Vilja til að breyta rétt eða rangt. Þar liggur ef til vill mikilleiki sköpunarinnar. Við erum ekki vélmenni sem erum forrituð. En Þessu frelsi eins og öllu frelsi fylgir ábyrgð. Á sama hátt og öllu valdi fylgir ábyrgð. Og það má segja að í frelsi mannsins sé fólgið vald.
Hinn þýskættaði Erich Fromm var meðal annars sálfræðingur og hann greinir á milli frelsi mannsins frá einhverju og frelsi hans til einhvers og á hið síðarnefnda að hafa jákvæða merkingu að hans mati.
Þeir eru margir múrarnir sem mennirnir hafa byggt. Múrarnir sem mennirnir hafa byggt innra með sér eru hvað gráastir og kaldastir. Hættulegastir. Ég held það megi segja það að slíkir múrar séu grundvöllur og upphaf allra múra þessa heims. Við skulum ávallt minnast þeirra sem líða og þjást vegna múra, hafta og hörmunga. Þeirra sem glíma og óttast. Þeirra sem missa og syrgja.
Minnumst stríðshrjáðra barna sem gráta og hrópa á hjálp. Barna sem skilja ekki hvað gengur á í lífi þeirra. Barna sem þrá einungis frið í faðmi fjölskyldu sinnar. Barna sem þrá það eitt að hafa þak yfir höfuðið. Barna sem hungrar og þyrstir. Því það er Guð sjálfur sem er kominn til okkar sem lítið barn lagt í jötu og við lútum vöggu hans í auðmýkt, þakklæti og kærleika. Eins og við lútum öllum börnum þessa heims.
Biðjum að Guð sendi öllum mönnum ljós sem veitir birtu og kærleika í sál hvers manns. Þannig að frelsi mannsins verði ávallt til góðs,
Guð blessi öll börn þessa heims og gefi ykkur öllum gleðileg jól og blessun á nýju ári.