Már Elísson, þjónustufulltrúi Félags húseigenda á Spáni, sagði mér nýlega fallega sögu af afadrengnum sínum sem býr í Noregi. Hann spilaði fótbolta með nokkrum drengjum. Þeir voru ekki allir af sama þjóðerni eða með sama húðlit. Tveir þeirra voru einstaklega góðir vinir og annar þeirra var barnabarn Más.
Eins og oft með börn þá vilja börn líkjast besta vini eða vinkonu „vera eins og…“. Litli íslenski vinur okkar var ekkert öðruvísi að því leitinu og bað mömmu sína um að klippa hárið sitt svo hann gæti verið eins og vinur hans. Barnið hafði ekki veitt því athygli að besti vinurinn var ekki bara með öðruvísi hár heldur og einnig hörundsdökkur. Ég held ég geti fullyrt að þetta barn hafði aldrei upplifað kynþáttafordóma á heimili sínu.
Ég vildi óska að sem flest börn, að öll börn hlytu slíkt uppeldi og fagurt veganesti með sér á lífsins veg.
„Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd, hann skapaði hann eftir Guðs mynd, hann skapaði þau karl og konu.“
1 Mós 1:26–27
Já, eftir sinni mynd þ. e. með öllum þeim fjölbreytileika sem manninn prýðir. Öllum birtingarmyndum mannsinns. Þessu getum við ekki horft fram hjá.
- Hvort það sé hún, hann eða hán, skiptir ekki máli.
- Hvernig sambúðarformið er, skiptir ekki máli.
- Litarháttur skiptir ekki máli.
- Trú, kynþáttur, kyn, kynvitund, menningarheimur og þjóðerni skiptir einfaldlega ekki máli.
Það sem skiptir Guð máli og gengur gegn Guði er illskan. Illskan í öllum sínum birtingarmyndum. Því Guð er kærleikur og andstæða kærleikans er illskan. Þetta áréttaði Jesús margoft. Hann umgekkst alla og útilokaði engan. Það birtist ekki síst í tvöfalda kærleiksboðorðinu.
„Jesús sagði: Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. Annað er hliðstætt þessu: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir.“
Matt. 22:37-39
Það er enginn ákveðinn náungi sem hann vísar til, heldur allar mannverur sem byggja þessa jörð. Undanfarið höfum við upplifað fordóma í samfélaginu okkar. Fordóma sem hafa leitt til haturs og illsku. Fordóma sem hafa meitt og sært. Lífshættulega fordóma. Það sorglega er að atburðir/fordómar síðustu viku hafa beinst gegn börnum.
Eðlilega erum við öll slegin. Okkur ber að vera það. Okkur ber að vera sannleikanum trú í kærleika. Því kærleikur Krists er stærri en allt. Hann rúmar allan fjölbreytileika þessa heims. Okkur ber að lifa kærleiksboðskap Krists og lifa samkvæmt orðum hans er hann sagði:
Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.
Matt. 7: 12
Guð blessi þig ævinlega og gefi þér kjark til að hafna ofbeldi og fordómum.
Séra Karítas