Já hann er upprisinn!
Dagar svika, háðs, pínu og dauða eru liðnir. Myrkrið hefur hörfað undan birtunni. Lífið sigrað dauðann, kærleikurinn sigrað hatrið.
Viðsnúningurinn er alger. Aftur.
Frá hylli lýðsins og hósíannahrópum við upphaf dymbilviku á pálmasunnudag, gengum við með Jesú til krossins á föstudaginn langa og nú upplifum við sigur lífsins.
Við heyrum kall Jesú er hann segir: Fylg þú mér.
Á pálmasunnudag hétu þrjár yndislegar stúlkur hér á Spáni, því að leitast við að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífs síns.
Það var heillaspor sem þær tóku og við fögnum með þeim um ókomna tíð.
Organistinn í sænsku kirkjunni á Costa Blanca, Görel Osberg valdi fallegt forspil fyrir þær, er þær gengu inn til móts við Drottinn og þetta gæfuspor.
Það valdi hún vegna textans sem hún vildi koma til skila til stúlknanna og hann hljóðar svo í lauslegri þýðingu:
Sem barn sem kemur heim að kvöldi og mætir hlýjum faðmi, var það fyrir mig að koma til Guðs.
Ég fann að þar ætti ég heima. Það var rúm fyrir mig í hinu stóra rými Guðs.
Staður sem beið mín.
Og ég fann að hér á ég heima. Ég vil vera barn á heimili Guðs.
Guð gefi ykkur gleðilega páska!