Um vefinn

Marteinn Lúther er einn áhrifamesti guðfræðingur allra tíma. Hann er upphafsmaður siðbótarinnar á 16. öld í Þýskalandi sem markaði djúp spor í kirkju- og menningarsögu Evrópu. Lúther var afkastamikill guðfræðingur sem skildi mikið eftir sig. Hann lifði og starfaði í borginni Wittenberg, en kom víða við í Þýskalandi.

Á slóðum Lúthers

Um árabil hafa dr. Gunnar Kristjánsson og Anna Höskuldsdóttir leitt Íslendinga á slóðir Lúthers til að kynnast hugmyndum siðbótarmannsins og sýn hans á trú og kirkju á hans eigin slóðum. Vorið 2011 gafst okkur tækifæri til að slást í hópinn undir leiðsögn þeirra og ferðast um Lúthersslóðir undir styrkri handleiðslu þeirra. Markmið ferðarinnar var tvíþætt, annars vegar að kynnast siðbótarmanninum og sögu hans enn betur, hins vegar að viða að okkur myndefni í umfjöllun um ævi, starf og guðfræði Lúthers. Við þökkum þeim leiðsögnina og viðmælendum okkur öllum fyrir að miðla af þekkingu sinni.

Kvikmynd og rafbók

Á slóðum Marteins LúthersEitt af einkennum siðbótarinnar var góð nýting á fremstu samskiptatækni þess tíma. Prentlistin, sem hélt innreið sína með Gutenberg, var nýtt í þágu þess að breiða út boðskap siðbótarmanna. Rit Lúthers voru prentuð og endurprentuð oft og dreift í miklum fjölda eintaka.

Í anda siðbótarinnar ákváðum við að nota nýjustu tækni til að miðla þessu verkefni. Heimildarmyndin er því orðin að nútíma rafbók sem geymir ekki bara texta heldur einnig ljósmyndir og myndbönd. Það er von okkar að formið henti vel til að miðla sýn á ævi og starf og hugmyndir siðbótarmannsins og verði þar með til að auka áhuga og skilning á honum. Um leið viljum við með því að nota þetta nútímalega form til að miðla kallast á við vinnu siðbótarmannanna sem nýttu nútíma tækni til að miðla boðskapnum um Jesú Krist.

Siðbótarárið 2017

Þegar þessi orð eru rituð eru tæp fimm ár þar til við minnumst 500 ára afmælis siðbótarinnar sem hófst árið 1517. Þessi bók er innlegg í þau hátíðarhöld. Við vonum að hún verði til að auka áhuga á siðbótinni sem slíkri og auka skilning á hugmyndum Lúthers og áhrifum hans hér á landi.

Að nota þennan vef

Vefurinn er hugsaður fyrir alla sem hafa áhuga á Lúther, til notkunar í almennri safnaðarfræðslu og fyrir fermingarbörn sem læra um Lúther í fermingarfræðslu sinni. Á vefnum eru einnig verkefni fyrir fermingarbörn sem þau geta unnið út frá efni vefsins. Verkefnablöðin eru á pdf-sniði sem einfalt er að sækja og prenta út.

Verkefnið Marteinn Lúther og siðbótin naut styrks úr héraðssjóði Kjalarnessprófastsdæmis sem við kunnum bestu þakkir fyrir.

Reykjavík á siðbótardaginn,
31. október 2012,
Árni Svanur Daníelsson og Kristín Þórunn Tómasdóttir