Altaristaflan í Borgarkirkjunni í Wittenberg

Kirkjan

Rafbók

Kirkjan snýst um tvennt að skilningi siðbótarinnar, orð Guðs og sakramentin skírn og kvöldmáltíð. Þetta er tjáð á ákveðinn hátt í Ágsborgarjátningunni sem er stefnuskjal siðbótarkirkjunnar.

Vængjataflan í Borgarkirkjunni

Í Borgarkirkjunni í Wittenberg hangir stór vængjatafla sem Lúkas Cranach eldri málaði árið 1547. Hún sýnir vel grundvallar hugmyndir siðbótarinnar sem snerust um Biblíuna, kirkjuna og sakramentin. Hún tjáir sérlega vel skilning siðbótarmanna á kirkjunni sem samfélagi þeirra sem koma saman um orð Guðs eins og það er boðað í Biblíunni, í samhengi sakramentanna sem miðla náð og fyrirgefningu Guðs inn í líf manna.

Altaristaflan blasti við fólki í hvert sinn þegar það kom til kirkju og talaði til þess á meðan guðsþjónustunni stóð. Hún er því prédikun í sjálfri sér því hún miðlar boðskapnum um kirkjuna, til þeirra sem horfa á og býður þeim þátttöku í samtali um lífið og trúna. Nærveran og þátttakan í því samtali er það sem býr til söfnuðinn hverju sinni og þar verður kirkjan til.

Eitt af því sem gerði altarisstöfluna svo áhrifaríka er að listamaðurinn notaði við íbúa borgarinnar sjálfrar sem fyrirmyndir þegar hann málaði persónurnar sem við sjáum á altaristöflunni. Meðal þeirra eru margir sem voru þátttakendur í siðbótinni sem samstarfsmenn Marteins Lúthers. Allir hafa sérstakt hlutverk í myndinni við að tjá boðskap siðbótarinnar og miðla honum til umheimsins.

Prédikun orðsins

Taflan skiptist í fjóra fleti sem fjalla um prédikun orðsins, skírnina, heilaga kvöldmáltíð og skriftir. Neðsti hlutinn sýnir Martein Lúther sjálfan prédika fyrir söfnuðinum í Wittenberg.

Lúther stendur í prédikunarstólnum hægra megin og söfnuðurinn, karlar og konur á öllum aldri, situr beint fyrir framan hann. Í söfnuðinum þekkjum við heimilisfólk Lúthers og samverkamenn hans. Fremst situr til að mynda konan hans, Katrín frá Bóra með Hans son þeirra.

fylgjast þau vel með því sem fram fer og missa ekki af einu orði frá prédikaranum – nema ein kona. Hún snýr sér að þeim sem horfir á altaristöfluna, kannski vegna þess að hún er þegar með hugann við það sem kemur á eftir prédikuninni eða vegna þess að hún á erfitt með að einbeita sér að því sem fram fer í kirkjunni.

Um hvað snýst prédikun Lúthers? Hún snýst um aðeins eitt, það sem hann bendir á og er í miðju myndarinnar. Jesús Kristur á krossinum. Jesús Kristur er miðja boðskapar kristinnar trúar og sá grundvöllur sem kristinn maður stendur á. Þetta var Lúther óþreytandi að benda á. Lendarklæði Jesú eru hvít og fyrirferðamikil og blakta í vindi. Þau eru tákn fyrir upprisu Jesú.

Neðsti hluti altaristöflu Lúkasar Cranachs miðlar því sem boðun orðsins snerist um að mati Lúthers. Hún miðlar Jesú Kristi, krossfestum og upprisnum.

Skírnin

Vinstri vængur töflunnar sýnir Filippus Melankton skíra ungabarn upp úr stórum steinfonti. Umhverfis hann eru samverkamenn siðbótarinnar. Skírnin er meðal annars innganga manneskjunnar í samfélag trúaðra, sem er kirkjan. Við þekkjum ekkert annað í dag en að prestar skíri börn og þannig var það líka á tímum Lúthers. En Filippus Melankton sem heldur á barninu var ekki prestur heldur prófessor við háskólann í Wittenberg sem kenndi guðfræði og grísku. Það hefur meðal annars þá þýðingu að rætur siðbótarinnar liggja í akademíunni og rannsóknum á hinu ritaða orði.

Á slóðum Marteins LúthersUngabarnið í örmum Filippusar á líka að minna á hina ungu siðbót sem var að taka sín fyrstu skref þegar altaristaflan var máluð. Alveg eins og lítið barn þarf marga í kringum sig til að ná að vaxa, dafna og þroskast, voru hugmyndir siðbótarinnar sem Marteinn Lúther ýtti úr vör upp á kristið fólk og framlag þeirra til samfélagsins komnar. Siðbótarkirkjan lagði mikla áherslu á einstaklinginn sjálfan sem viðtakanda Guðs orðs. Hin skírðu eru fullgildir viðtakendur náðar og fyrirgefningar Guðs og eru ekki upp á presta og hina vígðu stétt komin.

Skriftir

Hægri vængur altaristöflunnar sýnir Jóhannes Bugenhagen lyfta tákni skriftanna um játningu synda og fyrirgefningu. Jóhannes var prestur í Borgarkirkjunni, sem var sóknarkirkja Marteins Lúthers. Hann gegndi mikilvægu hlutverki á fyrstu árum siðbótarinnar og hafði meðal annars áhrif á útbreiðslu lútherskrar trúar til Danmerkur og Íslands.

Skriftir vísa til þess þegar kristinn maður játar syndir sínar fyrir Guði og þiggur fyrirgefningu í staðinn. Í kaþólsku kirkjunni eru skriftir eitt af sjö sakramentunum en siðbótarkirkjan gaf aðeins skírn og kvöldmáltíð þá stöðu. Eftir sem áður eru skriftir mikilvægar því þær eru tæki fyrir manneskjuna að upplifa og reyna náð Guðs í eigin lífi.

Lykillinn að því að upplifa náð Guðs er að horfast í augu við og viðurkenna það sem kreppir mann og bindur í fjötra. Myndin sýnir að sá sem þiggur skriftirnar, krýpur og játar syndir sínar, getur staðið upp frjáls manneskja sem er ekki lengur undir oki þess sem kreppir og lamar. En sá sem hrokast upp og heldur að hann hafi engar syndir að játa, er áfram sem bundinn væri.

Heilög kvöldmáltíð

Miðja altaristöflunnar er líka miðja kirkjuskilnings siðbótarinnar. Þarna sjáum við Jesú og lærisveina hans sitja til borðs á skírdagskvöld og neyta síðustu kvöldmáltíðarinnar. Máltíðin er sett inn á svið sem var söfnuðinum í Wittenberg kunnugt, út um gluggana sjást þekkt kennileiti í Saxlandi og umbúnaður innan húss allur í samræmi við samtíma málarans.

Frásagnir guðspjallanna um síðustu kvöldmáltíðina liggja til grundvallar því sem blasir við en listamaðurinn Lúkas Cranach hefur lyft nokkrum hlutum upp. Hringlaga borðið minnir á eilífðina því Guð er eilífur. Lærisveinar Jesú hafa tekið á sig mynd einstaklinga úr söfnuðinum. Meira að segja Lúther sjálfur, í dulbúningi riddarans Georgs, situr við borðið og þiggur vín frá þjóni sem er listamaðurinn sjálfur.

Andspænis Lúther situr frelsarinn með lærisveininn sem hann elskar í fanginu. Til hægri handar honum situr Júdas sem heldur á peningapoka í vinstri hendi. Þar eru silfurpeningarnir 30 sem Júdas þáði fyrir að svíkja Jesú í hendur óvina hans. Þrátt fyrir þetta lætur Jesús Júdas þiggja fæðuna úr hendi sinni. Þarna tjáir listamaðurinn þá sýn siðbótarinnar að jafnvel hinn óverðugasti er velkominn að borði Drottins. Náð Guðs stendur öllum til boða.

Á slóðum Marteins Lúthers

Lútherska kirkjan

Kristur er miðja trúar okkar og kirkjunnar sjálfrar. Þetta er höfuðeinkenni lútherskrar trúar. Á hverjum sunnudegi þegar við söfnumst til guðsþjónustu, játum við trúna á samfélag hinna heilögu. Það þýðir ekki að við trúum á kirkjuna sjálfa – heldur að við trúum því að samfélagið sem við eigum í kirkjunni sé raunverulegt. Hin heilögu eru í lútherskum skilningi þau sem treysta Guði og byggja líf sitt í trú á fyrirheitið um líf og frelsi. Þannig réttlætast þau fyrir trú en ekki af því þau eru svo frábær.

Hvar sem við söfnumst saman um orð Guðs, þar er kirkjan. Líf hinna kristnu fer alltaf fram í samfélagi, allt frá tímum Biblíunnar. Það er sérstaklega mikilvægt þegar lífstíll okkar og hraði samtímans hrekur fleiri og fleiri í einangrun og einmanaleika.

Kirkjan sem kennir sig við Martein Lúther er þannig samfélag þeirra sem byggja sjálfsmynd sína á trúnni (sola fide) á náð Guðs (sola gratia) sem Kristur (solus christus) birtir okkur í Biblíunni (sola scriptura).

Þetta samfélag nærir okkur, brýnir og styrkir til að þjóna bræðrum okkar og systrum í heiminum sem Guð elskar.