Hugvekjur – LUTHER https://luther.is Íslenskur söfnuður á Spáni Mon, 17 Apr 2023 13:00:20 +0000 is hourly 1 https://wordpress.org/?v=6.5.2 https://luther.is/wp-content/uploads/2021/11/cropped-260842382_932551687360973_6543451222550968799_n-1-32x32.png Hugvekjur – LUTHER https://luther.is 32 32 HERRANN LIFIR HÖLDUM PÁSKA! https://luther.is/herrann-lifir-holdum-paska-2/ Mon, 17 Apr 2023 12:19:49 +0000 https://luther.is/?p=2697 Já hann er upprisinn!

Dagar svika, háðs, pínu og dauða eru liðnir. Myrkrið hefur hörfað undan birtunni. Lífið sigrað dauðann, kærleikurinn sigrað hatrið.

Viðsnúningurinn er alger. Aftur.

Frá hylli lýðsins og hósíannahrópum við upphaf dymbilviku á pálmasunnudag, gengum við með Jesú til krossins á föstudaginn langa og nú upplifum við sigur lífsins.

Við heyrum kall Jesú er hann segir: Fylg þú mér.

Á pálmasunnudag hétu þrjár yndislegar stúlkur hér á Spáni, því að leitast við að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífs síns.

Það var heillaspor sem þær tóku og við fögnum með þeim um ókomna tíð.

Organistinn í sænsku kirkjunni á Costa Blanca, Görel Osberg valdi fallegt forspil fyrir þær, er þær gengu inn til móts við Drottinn og þetta gæfuspor.

Það valdi hún vegna textans sem hún vildi koma til skila til stúlknanna og hann hljóðar svo í lauslegri þýðingu:

Sem barn sem kemur heim að kvöldi og mætir hlýjum faðmi, var það fyrir mig að koma til Guðs.

Ég fann að þar ætti ég heima. Það var rúm fyrir mig í hinu stóra rými Guðs.

Staður sem beið mín.

Og ég fann að hér á ég heima. Ég vil vera barn á heimili Guðs.

Guð gefi ykkur gleðilega páska!

 

]]>
Asninn og uxinn við jötu jólabarnsins https://luther.is/asninn-og-uxinn-vid-jotu-jolabarnsins/ Mon, 26 Dec 2022 13:16:03 +0000 https://luther.is/?p=2375
Asninn og uxinn við jötu jólabarnsins.

Aðfararnótt 25.des 1223 lét heilagur Frans af Assisi gera látlaust fjárhús með  jötu í Greccio hellinum á Italíu. Þannig var endurgert umhverfið sem tók á móti litla barninu sem fæddist á jólanótt. 

Þó ekki sé minnst á uxa og asna í guðspjöllunum, lét heilagur Frans setja þá við jötuna í hellinum. Síðan þá hafa þessi fallegu og auðmjúku dýr verið hluti leikmyndar fjárhússins í Betlehem. Táknmyndir auðmýktar og ekki síður dýra sem vermdu litla kroppin með andardrætti sínum. Táknmyndir þess að öll sköpun Guðs er fólgin í kærleika hans.

En þessi uxi og þessi asni voru ekki einungis hugarburður heilags Frans. Því í spádómsbók Jesaja stendur:

„Uxinn þekkir eiganda sinn
og asninn jötu húsbónda síns
en Ísrael þekkir ekki,      
fólk mitt skilur ekki.“

Jes 1.3

Þjóðar sem allir menn tilheyrðu og orðin hjá Jesaja kallast á við skírnarskipun Jesú er hann sagði við lærisveina sína:

„…Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Sjá, ég með yður alla daga allt til enda veraldar.”

Matt. 28. 19-20

Það svo mikilvægt að muna, að enginn er undanskilinn kærleika Guðs. Öll sköpun Guðs er fólgin í þessum kærleika sem birtist okkur í barninu í jötunni. Ef við virkilega reynum að kafa ofan í merkingu þess að Guð sjálfur holdgerist í litlu barni, þá virðist það of fallegt til að vera satt.

Af þessum sökum, hafa uxinn og asninn í myndum frá miðöldum oft næstum mannlegt útlit og þeir lúta barninu í jötunni eins og þeir einir skilji allan leyndardóminn og dulúðina sem felst í kraftaverki fæðingar frelsarans.  

  • Þetta barn er Guð. Þess vegna er Guð ekki háleit vera handan seilingar okkar
  • Þetta barn er einhver nákominn, innan seilingar. 
  • Þetta barn er einhver sem eins lítill og við.

Getur þetta verið rétt? Til þess að ná utanum þann leyndardóm, verður fyrsta skref okkar ávallt að opna fyrir honum. Leyfa honum að hafa áhrif innan frá. Guð þvingar okkur ekki til lags við sig en sigrar okkur innanfrá. Ef við opnum fyrir ljósi hans og leyfum því að umbreyta okkur innanfrá geturm við fangað leyndardóm og kraftaverk Guðs. 

Ef eitthvað getur hrakið á brott hroka mannsins, skeytingarleysi hans og hatur þá er það blíða og varnarleysi lítils barns. Höfum það  í huga nú og alla daga að engin sköpun Guðs er undanskilin því mikla undri sem birtist okkur á jólanótt.

Megi Guð gefa okkur öllum hreint hjarta sem gefiur okkur lykil að leyndardómi, og  kraftaverki þess lífs sem fæddist í varnarleysi lítils barns. Fæddist til að þjóna allri sköpun Guðs.

Um leið og ég þakka gefandi og kærleiksrík samskipti á árinu sem er að líða, bið ég að Guð gefi ykkur öllum gleðileg jól og frið og farsæld á nýju ári.

Séra Karítas

]]>
Til þín sem átt um sárt að binda https://luther.is/sart-ad-binda/ Tue, 01 Nov 2022 09:30:06 +0000 https://luther.is/?p=2273

Nú tekur kvöldi að halla á allra heilagra messu og við tekur allra sálna messa. Á þessum dögum minnumst við ástvina sem gengnir eru. Við minnumst þeirra í virðingu og þökk og biðjum góðan Guð að senda okkur anda sinn til að gefa okkur huggun og styrk.

Kom, huggari, mig hugga þú,
kom, hönd, og bind um sárin,
kom, dögg, svala sálu nú,
kom, sól, og þerra tárin,
kom, hjartans heilsulind
kom, heilög fyrirmynd,
kom, ljós, og lýstu mér,
kom, líf, er ævin þver,
kom, eilífð, bak við árin.

Valdimar Briem

Ég bið Heilagan anda, hjálparann að varpa birtu yfir minningar og gefa ykkur sem syrgið og saknið, styrk, huggun og von.

Séra Karítas

]]>
Drengurinn sem vildi líkjast vinum sínum https://luther.is/drengurinn-sem-vildi-likjast-vini-sinum/ Sat, 22 Oct 2022 12:53:50 +0000 https://luther.is/?p=2263 Már Elísson, þjónustufulltrúi Félags húseigenda á Spáni, sagði mér nýlega fallega sögu af afadrengnum sínum sem býr í Noregi. Hann spilaði fótbolta með nokkrum drengjum. Þeir voru ekki allir af sama þjóðerni eða með sama húðlit. Tveir þeirra voru einstaklega góðir vinir og annar þeirra var barnabarn Más.

Eins og oft með börn þá vilja börn líkjast besta vini eða vinkonu „vera eins og…“. Litli íslenski vinur okkar var ekkert öðruvísi að því leitinu og bað mömmu sína um að klippa hárið sitt svo hann gæti verið eins og vinur hans. Barnið hafði ekki veitt því athygli að besti vinurinn var ekki bara með öðruvísi hár heldur og einnig hörundsdökkur. Ég held ég geti fullyrt að þetta barn hafði aldrei upplifað kynþáttafordóma á heimili sínu.

Ég vildi óska að sem flest börn, að öll börn hlytu slíkt uppeldi og fagurt veganesti með sér á lífsins veg.

„Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd, hann skapaði hann eftir Guðs mynd, hann skapaði þau karl og konu.“

1 Mós 1:26–27

Já, eftir sinni mynd þ. e. með öllum þeim fjölbreytileika sem manninn prýðir. Öllum birtingarmyndum mannsinns. Þessu getum við ekki horft fram hjá.

  • Hvort það sé hún, hann eða hán, skiptir ekki máli.
  • Hvernig sambúðarformið er, skiptir ekki máli.
  • Litarháttur skiptir ekki máli.
  • Trú, kynþáttur, kyn, kynvitund, menningarheimur og þjóðerni skiptir einfaldlega ekki máli.

Það sem skiptir Guð máli og gengur gegn Guði er illskan. Illskan í öllum sínum birtingarmyndum. Því Guð er kærleikur og andstæða kærleikans er illskan. Þetta áréttaði Jesús margoft. Hann umgekkst alla og útilokaði engan. Það birtist ekki síst í tvöfalda kærleiksboðorðinu.

„Jesús sagði: Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. Annað er hliðstætt þessu: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir.“

Matt. 22:37-39

Það er enginn ákveðinn náungi sem hann vísar til, heldur allar mannverur sem byggja þessa jörð. Undanfarið höfum við upplifað fordóma í samfélaginu okkar. Fordóma sem hafa leitt til haturs og illsku. Fordóma sem hafa meitt og sært. Lífshættulega fordóma. Það sorglega er að atburðir/fordómar síðustu viku hafa beinst gegn börnum.

Eðlilega erum við öll slegin. Okkur ber að vera það. Okkur ber að vera sannleikanum trú í kærleika. Því kærleikur Krists er stærri en allt. Hann rúmar allan fjölbreytileika þessa heims. Okkur ber að lifa kærleiksboðskap Krists og lifa samkvæmt orðum hans er hann sagði:

Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.

Matt. 7: 12

Guð blessi þig ævinlega og gefi þér kjark til að hafna ofbeldi og fordómum.

Séra Karítas

]]>
Eldri borgarar undir suðrænni sól https://luther.is/eldri-borgarar-undir-sudraenni-sol/ Sun, 25 Sep 2022 18:30:06 +0000 https://luther.is/?p=2232

ELDRI BORGARAR UNDIR SUÐRÆNNI SÓL


Í Orðskviðunum stendur:
„Gráar hærur eru heiðurskóróna,
á vegi réttlætis öðlast menn hana.“

Ok 16.31

Ég hallaði mér út um gluggann og horfði upp eftir þröngri götunni iðandi af lífi. Ég var stödd í gömlu hverfi í Barcelona. Það var að nálgast síestu og konurnar farnar að kaupa í matinn. Karlarnir stóðu á götuhornum og spjölluðu. Margir sem ég sá voru eftirlaunaþegar, en kannski veitti ég þeim bara mesta athygli. 

Augu mín staðnæmdust við eldri konu með innkaupatösku. Hún var í rósóttum litfögrum kjól, berfætt og gekk glaðlega niður eftir götunni í átt að glugganum mínum. Hún komst þó ekki langt því allir sem þekktu hana virtust þurfa að tala við hana. „Hvaða kona er nú þetta?“ hugsaði ég með mér.

Brátt áttaði ég mig á, að upp eftir allri götunni mátti sjá svipaða sjón. Eldri borgarar að spjalla. Útivera, hreyfing og mannleg samskipti samofin daglegu lífi og hversdagslegum hlutum eins og að kaupa í matinn.

Mér varð hugsað til eldri borgara á Íslandi, aðstæðna þeirra, félagslegra samskipta, heilsunnar, veðráttunnar og vetrarins. Margur eldri borgarinn býr við það í harðbýlu landi, að komast sjaldan út úr húsi yfir veturinn og geta því lítið stundað hreyfingu. Kuldinn sækir að lúnum beinum og vöðvum, sem stirðna upp og stífna. Önnum kafnir afkomendur hafa oft minni tíma en þeir vildu, fyrir eldri kynslóðir.

Eldri borgarar búa því oft við einangrun sem veðráttan bætir ekki úr. Veðráttan er glíma Íslendingsins sem nútímamaðurinn hefur að hluta leyst með upphituðum húsum, bílaeign og hreyfingu í líkamsræktarsölum.

Margur eldri borgarinn hefur átt þess kost að leita á suðlægari slóðir undanfarna áratugi. Sumir um skamman tíma aðrir lengri. Þar hefur fólk getað notið félagskapar við hvert annað og innfædda. Fengið hreyfingu með göngu í hlýju loftslagi þar sem vöðvar mýkjast, beinin liðkast og verkir minnka. Hverfa jafnvel.

Í meir en tvo áratugi hef ég verið svo lánsöm að hafa verið vitni að því hvernig eldri borgarar landsins okkar hafa blómstrað á suðlægum slóðum. Vaknað til lífsins. Það hefur verið gleðileg reynsla, lærdómsrík og vekjandi. Það varð svo skýrt fyrir mér að góð heilsa, dagleg hreyfing og æskufjör er ekki sjálfsagður hlutur. Hvað þá dagleg samskipti við aðrar mannverur.

Í þessari samveru hef ég orðið vitni að raunverulegri umbreytingu fólksins okkar. Gráminn í kinnum hverfur dag frá degi og roði kemur í staðinn, þung sporin léttast, klæðnaðurinn veður litríkari og konur og karlar skrýðast björtum glöðum sumarlitum. Hlátur heyrist oftar og verður bjartari. Kátína og glettni slást í för og verða kærkomnir ferðafélagar. Líkamlegt og andlegt atgervi tekur daglegum framförum.

Ár eftir ár hef ég orðið vitni að og fengið að njóta þess að sjá þessa upprisu eldri borgaranna okkar á erlendri grundu. Ég þakka Guði fyrir það veganesti.

Það er fjársjóður sem yljar mér og endist ævilangt. Því í honum eru fólgnar svo fagrar myndir af eldra fólki, sem blómstrar undir suðrænni sól, umvafið hlýju sem gælir við vöðva og lúin bein, í glaðværu samfélagi þar sem hlýhugur og vinarþel ríkir.

Guð blessi þig og þau öll.

Séra Karítas

]]>