Biblían

Rafbók

Biblían var í brennidepli í lífi Lúthers og siðbótarinnar allrar. Sem prófessor í Wittenberg kenndi hann ritskýringu Biblíunnar, hann ritaði fjölda skýringarrita við rit Biblíunnar, hann þýddi Biblíuna á þýsku og sem prestur prédikaði hann úr Biblíunni allt sitt líf.

Í augum Marteins Lúthers var mikilvægast af öllu að fólk gæti lesið og skilið Biblíuna. Aðeins þannig gæti orð Guðs verið kjölfestan í lífi þess. Fyrirheit Guðs um líf var lykill Lúthers að frelsi manneskjunnar. Á grundvelli trúarinnar á þetta fyrirheit Guðs erum við kölluð til ábyrgðar í heiminum. Þannig er Biblían, trúin, náðin og Kristur sjálfur grundvöllurinn fyrir líf hinnar kristnu manneskju í heiminum.

Á slóðum Marteins Lúthers

Biblíuþýðing Lúthers

Biblíuþýðing Lúthers kom út á árunum 1522-1534, en Lúther hófst handa við hana árið 1521 þegar hann dvaldist í útlegð í kastalanum í Wartburg. Á meðan á dvöl hans stóð þar þýddi hann allt Nýja testamentið úr grísku.

Hann sneri aftur til Wittenberg í mars 1522 og þá var sú þýðing endurskoðuð af honum og félögum hans, einkum Filippusi Melanchthon og Georgi Spalatín. Nýja testamentið kom svo út í september 1522.

Þýðing á ritum Gamla testamentisins fylgdi í kjölfarið og kom út í nokkrum hlutum. Biblían öll kom út árið 1534. Þýðingarstarfinu var þó ekki lokið því Lúther og samstarfsmenn héldu áfram að endurskoða og endurbæta þýðinguna.

Þýðingin var gerð úr frummálunum hebresku og grísku og hún var á góðu og skiljanlegu máli. Hið síðarnefnda átti eftir að tryggja áhrif hennar um langa tíð.

Biblía Lúthers fékk mikla útbreiðslu. Prentaðar voru tíu útgáfur af allri Biblíunni og 80 útgáfur af hlutum hennar í Wittenberg á meðal Lúther lifði.

Í ljósi þessa má segja að Biblíuþýðingin sé mikilvægasta verkið sem Lúther vann og sendi frá sér á sínum annars viðburðaríka ferli.

Formálar að ritum Biblíunnar

Á slóðum Marteins LúthersÞýðingu Lúthers fylgdu formálar að flestum ritum Biblíunnar og glósur á spássíum. Formálana skrifaði Lúther til að auðvelda lesendum að skilja Biblíuna á réttan hátt. Formálarnir eru vitnisburður um viðhorf Lúthers til Biblíunnar og hugmyndir hans um túlkun hennar. Þeir eru jafnframt vitnisburður um guðfræði hans og um viðhorf siðbótarmanna til Biblíunnar.  Fyrir Íslendinga hafa formálarnir nokkra sérstöðu því að formálarnir sem fylgdu Nýja testamentinu eru fyrstu rit Lúthers sem þýdd voru á íslensku. Þeir fylgdu þýðingu Odds Gottskálkssonar á Nýja testamentinu sem kom út árið 1540. Formálarnir áttu eftir að fylgja íslenskum Biblíuútgáfum næstu tvær aldirnar.

Með Krist fyrir augum

Lúther leit á Gamla testamentið sem sem einfalda, en göfuga framsetningu á sannleikanum um Guð. Í Formála að Gamla testamentinu skrifaði hann:

„Þú skalt banda frá þér eigin skoðunum og tilfinningum og líta á Ritningarnar sem það háleitasta og göfugasta af öllum sem er heilagt, sem hina auðugustu námu sem aldrei verður fyllilega könnuð, til að þú megir þar nema þá guðlegu speki sem Guð hefur hér sett fyrir þig á einföldu formi.“ 

Í sama formála orðar hann nálgun sína við Biblíuna þegar hann skrifar: „Viljir þú túlka rétt og af öryggi þá skaltu hafa Krist fyrir framan þig, því hann er sá sem allt snýst um.“ Þannig leggur Lúther áherslu á að Gamla testamentið og raunar Biblían öll sé lesin í ljósi boðskapar Jesú Krists.

Að mati Lúthers var mælikvarðinn á gildi rita Biblíunnar hversu skýra kenningu um hjálpræðið væri að finna í ritinu, hversu skýr vitnisburðurinn um það fagnaðarerindi að maðurinn réttlætist fyrir trú á Krist, án eigin verka, væri.

Hann leit jafnframt svo á að það væri betra að í riti væri inntak verks Krists og gildi fyrir hinn trúaða útskýrt en að ævi hans væri útlistuð. Því taldi hann bréf Nýja testamentisins og Jóhannesarguðspjall mikilvægari en samstofna guðspjöllin.