Stytta af Katrínu frá Bóra

Ævi og starf

Rafbók

Yngri ár Lúthers

Marteinn Lúther fæddist 10. nóvember árið 1483 í borginni Eisleben. Á þeim tíma var Þýskaland hluti af hinu heilaga rómverska keisaradæmi. Foreldrar hans hétu Hans og Margrét. og Daginn eftir að drengurinn þeirra fæddist var hann borinn til skírnar og nefndur í höfuðið á heilögum Marteini frá Tours, en þá var messudagur hans.

Á slóðum Marteins Lúthers

Ári seinna flutti fjölskyldan til Mansfeld þar sem Hans Lúther tók að sér verkstjórn í námuvinnslu þorpsins. Fjölskyldufaðirinn var staðráðinn í því að Marteinn sonur hans skyldi fá að ganga menntaveginn og verða lögfræðingur. Í því skyni sendi hann drenginn í skóla, fyrst í Mansfeld þar sem fjölskyldan bjó, svo í Magdeburg þegar Marteinn var fjórtán ára og til Eisenach ári seinna.

Háskólanám í Erfurt

Árið 1501, þegar Marteinn var nítján ára gamall, var hann tekinn inn í háskólann í Erfurt. Þar beið hans mikið og strangt nám, þar sem skólasveinar vöknuðu fyrir allar aldir til að kljást við klassískt námsefnið. Lúther lauk meistaragráðu frá háskólanum árið 1505. Þá fékk hann inngöngu í lagadeild háskólans, ekki síst fyrir vilja föður hans, en dvaldi þar ekki lengi því hugurinn leitaði á aðrar slóðir.

Lúther heillaðist af þeim fögum sem fjölluðu um grunnhugmyndir og -stoðir lífsins, guðfræði og heimspeki. Svo var það sumarið 1505 að hann var á leið til Erfurt eftir heimsókn á heimaslóðir, að óveður skall á og eldingu laust niður nærri honum. Sú reynsla hristi upp í honum og hann hét sjálfum sér og máttarvöldunum að hann skyldi gefa líf sitt í þjónustu við Guð og ganga í klaustur.

Sagan segir að hann hafi á því augnabliki sem eldingunni laust niður og hann varð svo áþreifanlega minntur á eigin dauðleika, hrópað til dýrlingsins heilagrar Önnu – móður Maríu meyjar – og lofað því að verða munkur ef hún aðeins bjargaði honum frá þessum hremmingum. Þetta loforð vildi hann sannarlega efna og yfirgaf því snarlega lagadeildina, seldi bækurnar sínar og gekk í Ágústínusarklaustrið í Erfurt 17. júlí 1505, föður sínum sem sá á bak efnilegum frama sonar síns innan lögfræðinnar, til mikillar skapraunar.

Lúther gengur í klaustur

Þegar Lúther gekk í Ágústínusarregluna tók hið stranga klausturlíf við – föstur, bænavökur, pílagrímagöngur og skriftamál. Hann lagði mjög hart að sér við að uppfylla reglur og kröfur klausturreglunnar, svo hart að hann fullyrti síðar að ef hið stranga klausturlíf gæti leitt til himnaríkisdvalar hefði hann án efa unnið sér inn fyrir slíku. En ákafi hans og áhugi leiddu einungis til djúprar angistar um andlegt ástand hans og afdrif sálarinnar. Seinna vísaði hann til þessa tíma og sagði að í stað þess að njóta Krists sem frelsara síns og huggara hefði hann upplifað Krist sem fangavörð og böðul sálarinnar.

Skriftafaðir og trúnaðarvinur Lúthers, Jóhannes von Staupitz, vildi beina munkinum unga á heilbrigðari slóðir og hvatti hann til frekara náms. Árið 1507 vígðist hann til prests og árið eftir fór hann til Wittenberg og byrjaði að kenna guðfræði við háskólann þar.  Árið 1512 lauk hann doktorsprófi í biblíufræðum og varð prófessor í Wittenberg. Þeirri stöðu átti hann eftir að gegna ævilangt.

Upphaf siðbótarinnar

Siðbótin átti sér stað í flóknu samspili kirkju, guðfræði og stjórnmála við lok miðalda. Algengt er að miða upphaf siðbótarinnar við mótmæli Marteins Lúthers við sölu aflátsbréfa kirkjunnar. Aflátsbréfin voru seld um alla Evrópu til að standa straum af kostnaði við byggingu Péturskirkjunnar í Róm. Þau komu til Þýskalands árið 1516 og það var dóminíkanamunkurinn Jóhannes Tetzel sem hafði veg og vanda af sölu þeirra þar.

Á slóðum Marteins Lúthers

Sala aflátsbréfanna olli Marteini Lúther miklu angri af hugmyndafræðilegum ástæðum. Hann gat með engu móti sætt sig við boðun Tetzels um að verslun með bréf hefði einhver áhrif á Guð og afstöðu hans gagnvart manneskjunni. Þess vegna ritaði hann til biskupsins síns, Albrecht í Mainz, til að upplýsa hann um starfsemi Tetzels. Afrit af því bréfi hengdi hann upp á dyr Hallarkirkjunnar í Wittenberg og það er þekkt sem hinar 95 greinar Lúthers.

Greinarnar innihalda mótmæli Lúthers við aflátssölu og útskýringar á því hvers vegna sala aflátsbréfa standist engan veginn boðskap kirkjunnar um fyrirgefningu Guðs. Lúther á að hafa fest greinarnar 95 á kirkjudyrnar 31. október árið 1517 og við þann atburð er upphaf siðbótarinnar oft miðað.

Átök við Páfa og Rómarkirkju

Greinarnar 95 voru fljótlega þýddar og fjölritaðar og dreifðust víða. Þær vöktu mikla athygli á Lúther og áhugasamir stúdentar þyrptust í fyrirlestra hans í háskólanum. Lúther var afkastamikill á árunum sem fylgdu í kjölfarið, skrifaði bæði skýringarrit við bækur Biblíunnar og guðfræðilegar ritgerðir um stöðu mannsins gagnvart Guði og náunganum.

Skrif hans og skýr framsetning á málefnum trúar og kirkju gerðu Lúther að vandræðamáli fyrir rómversku kirkjuna. Hann gerðist sífellt gagnrýnni á margt í framkvæmd og siðum kirkjunnar og fannst margt í kirkjusiðunum bera vitni um spillta og firrta trú. Því fór það svo að þrátt fyrir að Lúther hefði ekki í huga að láta sverfa til stáls og kljúfa sig frá kirkjunni sem hann þjónaði, varð ekki hjá því komist að leiðir skildu.

Eftir mikil skrif, kappræður og deilur fór það svo að Leo X páfi bannfærði Lúther, í janúar 1521, m.a. fyrir að mótmæla einveldi páfa og kirkjuþinga til að túlka Biblíuna og vegna þess að Lúther var ófáanlegur til að draga innihald greinanna 95 um aflátssöluna til baka.

Það kom til kasta veraldlegra yfirvalda að fylgja banninu á Lúther og skrifum hans eftir. Þess vegna var Lúther kallaður fyrir ríkisþingið í Worms seinna sama ár, þar sem hann var látinn svara fyrir Karli V keisara. Lúther var ekki einn í baráttunni fyrir skoðunum sínum, því hann naut mikilvægs stuðnings og verndar Friðriks Vitra, kjörfursta í Saxlandi.

Í Worms fékk Lúther tækifæri til að afneita fyrri skrifum sínum og draga til baka innihald þeirra. Það lét hann ógert og því var hann dæmdur útlægur og réttdræpur innan alls keisaradæmisins. Einnig voru skrif hans bönnuð og með öllu óheimilt að skjóta yfir hann skjólshúsi eða aðstoða á nokkurn hátt.

Útlegð í Wartburg

Á leiðinni frá þinginu í Worms greip velgjörðarmaður Lúthers, Friðrik Vitri, til sinna ráða. Hann sviðsetti mannrán þar sem Lúther var gripinn og færður í leynum til kastalans í Wartburg. Það átti eftir að vera heimili Lúthers í um mánaða skeið en til að tryggja öryggi hans sat hann þar dulbúinn sem Georg riddari – Junker Jörg.

Á slóðum Marteins Lúthers

Lúther sat ekki iðjulaus í Wartburg. Á meðan dvöl hans þar stóð þýddi hann Nýja testamentið úr grísku yfir á þýsku og skrifaði fjölda rita um guðfræðilegar deilur kirkjunnar. Rit hans bárust frá Wartburg út um ríkið og einnig til Wittenberg þar sem hlutirnir gerðust hratt.

Samstarfsmaður Lúthers, Andreas Karlstadt, stóð fyrir mjög róttækum breytingum á kirkjusiðum og framsetningu trúarinnar í lífi kirkjunnar. Þessar breytingar, en þó einkum aðferðirnar við þær hugnuðust ekki Lúther, sem sá hvaða óróa og óöryggi þær fæddu af sér í samfélaginu. Meðal þess sem breiddist út var öfgafull afstaða til myndnotkunar í kirkjum og helgihaldi. Fulltrúar þeirrar afstöðu hafa verið kallaðir myndbrjótar – enda brutu þeir og brömluðu myndir og styttur í kirkjum.

Til að bregðast við þessu sneri Lúther aftur til Wittenberg og hóf strax aðgerðir og samtal til að snúa við því sem honum fannst óheillaþróun í siðbótinni. Eitt það fyrsta sem hann gerði var að prédika í Borgarkirkjunni um kjarnaatriði kristinnar trúar og nauðsyn þess að halda sig við þau í allri boðun og starfi. Röð átta prédikana Lúthers um þessi efni er kennd við fyrsta sunnudag í föstu og kölluð Invokavit prédikanirnar. Í þeim brýndi hann samfélagið til að treysta fyrirheitum Guðs í orði hans frekar en að nota ofbeldi til að knýja fram breytingar.

Þótt málin hafi róast í Wittenberg átti róttækur málstaður myndbrjótanna sér hljómgrunn víða í kring. Hugmyndir um að breyta valdakerfi kirkjunnar urðu þeim einnig innblástur sem vildu sjá róttækar breytingar í skipulagi samfélagsins, ekki síst meðal fátækra bænda sem voru undir yfirstéttina settir. Órói og erjur urðu að beinum átökum í stríði sem er kallað bændauppreisnin.

Þótt Lúther hefði samúð með málstað bændanna gat hann ekki sætt sig við að hans eigin hugmyndir væri notaðar til að réttlæta ofbeldi og upplausn í samfélaginu. Þess vegna brást hann hart við uppreisnarstríðinu og lagðist á sveif með yfirvöldum í því skyni að koma á friði og öryggi á svæðinu.

Lúther fordæmdi ofbeldismennina sem skildu eftir sig slóð eyðileggingar og kallaði eftir hörðum viðbrögðum samfélagsins gegn þeim.

Bændauppreisnin var barin niður með hörku en róttæka siðbótin lifði m.a. í samfélagi endurskírenda og minni sértrúarhópum sem dreifðust út um Evrópu.

Fjölskyldan

Á meðan þessum átökum stóð steig Marteinn Lúther mikilvægt skref í lífinu. Sumarið 1525 gekk hann í hjúskap með Katrínu frá Bóra, sem var ein af 12 nunnum sem höfðu flúið úr sistersíanaklaustrinu í Nimbschen vegna stríðsátaka uppreisnarinnar. Saga flóttans úr klaustrinu er ævintýraleg en nunnurnar földu sig í stórum síldartunnum sem verið var að flytja og sluppu þannig.

Á slóðum Marteins Lúthers

Þegar Marteinn og Katrín gengu í hjúskap var hann 41 árs og hún 26 ára. Þau opinberuðu ráðahaginn í návist samstarfsmanna Lúthers og það var sóknarpresturinn þeirra, Jóhannes Bugenhagen sem gaf þau saman.

Ráðahagurinn var raunverulegur en líka táknrænn, því þarna gengu í hjúskap munkur og nunna sem voru vitaskuld bundin skírlífisheiti klausturreglnanna. Lúther setti þannig ný viðmið fyrir kirkjunnar þjóna sem að hans mati voru ekki undanskildir köllun hjónabandsins frekar en annað fólk.

Lúther og Katrín gerðu klausturbyggingu í borginni að heimili sínu en kjörfurstinn Jóhannes Staðfasti gaf þeim það í brúðkaupsgjöf. Þau lifðu ríku og gefandi fjölskyldulífi þrátt fyrir mikið álag og áreiti vegna starfa Lúthers. Þau höfðu aldrei mikið fé milli handanna, en útsjónarsemi Katrínar kom sér vel á stóru og gestrisnu heimili. Þeim var sex barna auðið en tvö þeirra létust í æsku.

Katrín lést árið 1552 í Torgau, þar sem hún er grafin. Þrátt fyrir að hún hafi verið einn af mikilvægustu siðbótarmönnunum vegna hlutverks síns í að skapa hefðina fyrir lútherska prestsheimilinu, er ekki vitað mikið um atriði í lífi hennar þar sem heimildir skortir mjög.

Ævilok

Lúther lifði viðburðarríku lífi og setti mark sitt á eigið samfélag og sögu okkar allra. Hann lést 62 ára gamall í fæðingarborg sinni Eisleben, þar sem hann dvaldist um skamma hríð. Hann var grafinn í Hallarkirkjunni í Wittenberg og hvílir þar við hlið samstarfsmanns síns og vinar, Filippusar Melankton.